1986 nr. 20 30. apríl/ Lög um Siglingamálastofnun ríkisins
Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120a. Uppfært til febrúar 1996.
Lög um Siglingamálastofnun ríkisins
1986 nr. 20 30. apríl
1. gr. Siglingamálastofnun ríkisins starfar undir yfirstjórn samgönguráðherra. [Umhverfisráðherra fer þó með yfirstjórn mála er falla undir 7. tölul. 2. gr. laga þessara.]1)
1)L. 47/1990, 12. gr.
2. gr. Hlutverk Siglingamálastofnunar ríkisins er:
- 1.
- Að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um mál sem eru í verkahring stofnunarinnar.
- 2.
- Að annast eftirlit með nýsmíði skipa, búnaði, breytingum og innflutningi og annað almennt eftirlit skipa samkvæmt lögum um eftirlit með skipum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
- 3.
- Að annast framkvæmd alþjóðasamþykkta um öryggi mannslífa á hafinu sem Ísland er aðili að.
- 4.
- Að annast framkvæmd alþjóðahleðslumerkjasamþykkta sem Ísland er aðili að.
- 5.
- Að ákveða hleðslumerki fyrir fiskiskip eftir nánari reglum er ráðherra setur.
- 6.
- Að fylgjast með rannsókn sjóslysa hjá siglingadómi og sjódómi og veita aðstoð við rannsókn sjóslysa. Rita umsögn um sjópróf til ríkissaksóknara.
- 7.
- [Að annast mál er varða lög um varnir gegn mengun sjávar og reglugerðir samkvæmt þeim að því leyti sem þau varða skip og búnað þeirra samkvæmt reglum sem umhverfisráðherra setur.]1)
- 8.
- Að annast framkvæmd laga og reglna um mælingu skipa, svo og mál er varða alþjóðasamþykkt um mælingu skipa.
- 9.
- Að annast framkvæmd laga um skráningu skipa og skýrslugerð um íslenskan skipastól. Ráðherra getur sett nánari reglur um gerð skipaskrár.
- 10.
- Að annast af Íslands hálfu samstarf við alþjóðastofnanir varðandi þau mál sem eru í verkahring stofnunarinnar.
- 11.
- Að annast framkvæmd laga og reglugerða um kafarastörf.
- 12.
- Að annast mál er varða siglingalög og sjómannalög að því leyti sem þau varða skráningu skipa, skip og búnað þeirra, siglingaöryggi og önnur mál sem ráðuneytið kann að fela stofnuninni varðandi siglingar og áhafnir skipa.
1)L. 57/1995, 2. gr.
3. gr. Samgönguráðherra getur með reglugerð1) kveðið nánar á um hlutverk og starfshætti Siglingamálastofnunarinnar og um einstök verkefni hennar.
1)Rg. 4/1987
og 209/1995.
4. gr. Siglingamálastjóri skal, að fenginni umsögn siglingamálaráðs, skipaður af samgönguráðherra til fimm ára í senn. Hann annast framkvæmdastjórn þeirra mála sem falin eru Siglingamálastofnuninni.
Ráðherra ræður annað starfsfólk stofnunarinnar að fengnum tillögum siglingamálastjóra.
Siglingamálastofnun ríkisins skal skipt í deildir samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
Heimilt er siglingamálastjóra að ráða trúnaðarmenn Siglingamálastofnunar utan höfuðborgarsvæðisins og ákveður ráðherra þeim þóknun að fengnum tillögum siglingamálastjóra.
5. gr. Samgönguráðherra skipar siglingamálaráð.
Verkefni siglingamálaráðs skal vera:
- 1.
- Að vera ráðgefandi aðili fyrir ráðherra og siglingamálastjóra í málum varðandi starfsemi Siglingamálastofnunar ríkisins, svo og öðrum þeim málum sem ráðsmenn eða siglingamálastjóri telja rétt að ráðið fjalli um.
- 2.
- Að gera tillögur um breytingar á lögum og reglum varðandi verkefni Siglingamálastofnunar ríkisins.
- 3.
- Að fjalla almennt um öryggismál skipa og báta, þar á meðal að sjá um birtingu á niðurstöðum af rannsóknum sjóslysa, ekki sjaldnar en árlega, í samvinnu við nefnd þá er starfar að rannsóknum sjóslysa skv. 230. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, með síðari breytingu.
6. gr. Samgönguráðherra skipar sjö fulltrúa í siglingamálaráð til fjögurra ára í senn, svo og varamenn þeirra.
[Formann og varamenn hans skipar ráðherra án tilnefningar og skal formaður vera fulltrúi samgönguráðuneytisins. Aðra fulltrúa skipar ráðherra samkvæmt tilnefningu eftirtalinna samtaka: Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Sambands íslenskra kaupskipaútgerða, Sjómannasambands Íslands, Landssambands smábátaeigenda, Félags dráttarbrauta og skipasmiðja og Slysavarnafélags Íslands.]1)
Ef aðalmaður er fjarverandi situr varamaður fundi í hans stað. Varamaður á rétt á fundarsetu þótt aðalmaður sé á fundi og hefur þá málfrelsi og tillögurétt.
Siglingamálastjóri situr fundi siglingamálaráðs ásamt þeim embættismönnum stofnunarinnar, sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir, með málfrelsi og tillögurétti.
1)L. 61/1988, 1. gr.
7. gr. Siglingamálaráð skal kvatt saman svo oft sem þurfa þykir að mati formanns eða meiri hluta nefndarmanna eða ef siglingamálastjóri óskar eftir en þó aldrei sjaldnar en sex sinnum á ári.
8. gr. Aðalaðsetur Siglingamálastofnunar skal vera í Reykjavík en auk þess skal stofnunin hafa umdæmisskrifstofur í Vesturlandsumdæmi, Vestfjarðaumdæmi, Norðurlandsumdæmi, Austurlandsumdæmi og Vestmannaeyjum.
Samgönguráðherra ákveður að fengnum tillögum siglingamálastjóra mörk umdæma og hvar umdæmisskrifstofur skuli vera.
9. gr. ...1)
1)L. 35/1993, 35. gr.
10. gr. Starfsmenn Siglingamálastofnunarinnar eru opinberir starfsmenn og njóta réttar og bera skyldur í samræmi við það.
11. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. ...
Ákvæði til bráðabirgða. ...